145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nú fleira en fullkomlegt ógagnsæi ríkisstjórnarinnar og möndl hennar með kröfuhöfum bak við luktar dyr — sem birtist svo í einhverjum niðurstöðum á vef fjármálaráðuneytisins kl. 04.00 að næturlagi, svona til að undirstrika það hversu lokað þetta er — sem vekur áhyggjur um þessar mundir og spurningar um hvert Ísland er að fara. Ætli það sé ekki allvíða óbragð í munni manna eftir sölu Arion banka fyrir fram á hlutafé í Símanum á vildarkjörum til góðvina sinna? Minnir þetta ekki á ýmislegt sem við héldum að ætti ekki að endurtaka sig á Íslandi?

Og hvað er núna í fréttunum? Að lífeyrissjóðir selja næstum tveggja tuga milljarða eignasafn án nokkurrar auglýsingar, án þess að aðrir eigi þess kost að bjóða í þær, og hver er þar undir og yfir og allt um kring? Hann er ekki bara öllum megin við borðið, hann er ofan á því og undir því líka. Það er Arion banki. Arion banki á hlut í seljandanum. Arion banki á hlut í kaupandanum. Arion banki, eða fyrirtækjaráðgjöf hans, sá um söluna og Arion banki fjármagnaði kaupin. Verður það fullkomnara en þetta? Og ég verð að segja alveg eins og er að það vekur hroll hjá manni í hvaða átt þessi mál eru að fara. Þetta er ekkert annað en 2007-siðmengunin sem er að læðast aftan að okkur á fullri ferð og ríkisstjórnin er þar ekkert betri en aðrir með sínum vinnubrögðum bak við luktar dyr og fara þó þar fyrir þeir menn sem sennilega hafa haft stærstu orðin af öllum í lýðveldissögunni um mikilvægi gagnsæis hér í þessum sal á síðasta kjörtímabili. Ef það er eitthvað sem þetta vekur okkur virkilega til umhugsunar um þá er ekki seinna vænna að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Bankarnir, eða Arion banki í þessu tilviki, eru að misnota það að geta möndlað bæði með eignir og eignasöfn sem þeir hafa í höndunum, rekið fyrirtækjaráðgjöf og verið svo viðskiptabanki og fjármagnað viðskipti af þessu tagi. Þetta er algerlega óþolandi og nú stendur upp á stjórnvöld að gera eitthvað í þessum efnum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna