145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs þann 20. október 2012 greiddu 73.408 manns, eða um tveir þriðju hlutar þeirra sem kusu, atkvæði með því að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Það er hærra hlutfall atkvæða en núverandi ríkisstjórn hefur fyrir stjórnarmeirihluta sínum.

Í grunnstefnu Pírata er meðal annars skrifað, með leyfi forseta:

„Borgararéttindi eru lögbundin réttindi einstaklinga til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi.“

Þeir sem kjósa að taka ekki þátt afsala sér ákvörðunarvaldi. Þannig skiptir fjöldi þátttakenda minna máli en hlutfallslega niðurstaða í kosningum. Allar líkur eru á því að hlutfallsleg niðurstaða yrði sú sama ef fleiri mundu taka þátt. Niðurstaða kosninganna 20. október er því skýr og það er mín persónulega skoðun að allar breytingar sem þing vill gera á frumvarpi stjórnlagaráðs — í ljósi þess hversu hátt hlutfall kjósenda samþykkti að leggja það til grundvallar — eða einstökum greinum þess, verði að kjósa um sem valmöguleika gegn upphaflegum texta frumvarpsins um nýja stjórnarskrá.

Sem dæmi: Ef þing vill bæta við þátttökuþröskuldum verða kjósendur að fá að velja um það hvort þeir vilji þær breytingar eða ekki. Í spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október um það hvort í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um að hægt sé að skjóta máli til þjóðarinnar er ekki kveðið á um þátttökuþröskuld. Og ef auðlindaákvæðið verður orðað á annan hátt en í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verða kjósendur að fá tækifæri til að hafna þeim breytingum.

Valkostir skipta nefnilega máli, spurningar verða að vera skýrar og það verður að liggja skýrt og skilmerkilega fyrir hvað niðurstaða fyrir hverja spurningu þýði, af eða á, fyrir kosningarnar svo við þurfum ekki að upplifa túlkun á niðurstöðum eftir kosningar. Virðum því ferlið sem búið var til og leyfum þjóðinni að ráða.


Efnisorð er vísa í ræðuna