145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru stórar spurningar. Varðandi fulla staðgöngu, segjum sem svo að kona gangi með barn sem ekki er hennar egg og augljóslega ekki hennar sáðfruma. Ég hef lesið greinar um að það barn verði samt sem áður líffræðilegt barn þessarar konu að einhverjum hluta því að blóðskipti og allt það sem gerist á meðan barnið er að vaxa í móðurkviði er með DNA frá móðurinni sem gekk með það. En þarna er ég komin út á svið sem ekki er mitt sérsvið.

Varðandi spurningar um einmitt hvar ætlum við að draga mörkin þá er ég ekki fullkomlega sannfærð um hvar við eigum að draga þau mörk af því að það er alltaf flókið. Ég tel að við eigum að endurskoða það að á Íslandi heimilum við gjafaegg og gjafasæði án þess að vitað sé hvaðan það kemur, en lögum samkvæmt eiga börn rétt á að þekkja uppruna sinn. Sum börn gera það ekki eðli málsins samkvæmt því að það gerist eitthvað sem veldur því. Við getum ekki með lögum tekið þennan rétt af börnum en við vitum það líka að það verður erfiðara að fá gjafasæði við þessar aðstæður. En þá eru til sæðisbankar þar sem börn geta fengið að vita við 18 ára aldur hver faðirinn er en þau hafa engar lagalegar skuldbindingar á viðkomandi.

Ég svara ekki spurningunum til fullnustu, mér finnast mörkin ekki vera skýr, en við þurfum alltaf að gæta að (Forseti hringir.) hagsmunum móðurinnar og barnið er auðvitað (Forseti hringir.) í fyrsta sæti í þessu máli.