145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Þetta er þriggja manna nefnd — með lækni og sálfræðingi eða félagsráðgjafa, sem ég held að eigi mjög vel heima þarna; ég hefði líka viljað sjá siðfræðing í henni og þessi eini lögfræðingur — og þau eiga að hafa aðgang að sérfræðiráðgjöf. Þau eru að takast á við mjög ólík verkefni og eiginlega óskyld verkefni nema bæði hafa með staðgöngumæðrun að gera. En álitaefnin, sem verið er að taka afstöðu til, eru gríðarlega ólík í þessum tveimur hlutverkum.

Ég hefði viljað sjá hér óbreytta löggjöf, en nálgun á það hvernig við tökum á því að hér eru að koma upp tilfelli þar sem komið er með börn sem getin eru erlendis af staðgöngumóður. Það er verið að búa til einhverja lagaumgjörð, en það er ekki skýrt með neinum hætti, af því það er ekkert öðruvísi en er í dag. Ef nefndin segði: „Já, þetta barn er getið erlendis af staðgöngumóður og þar voru allt önnur lög, þar eru engin lög og þar má gera þetta í hagnaðarskyni, eins og á Indlandi þar sem er skelfilegt ástand í þessu málum, og við ætlum ekki að heimila þessa yfirfærslu á foreldrastöðu“, þá fer það til dómstóla bara rétt eins og í dag. Það er ekki verið að breyta því með nokkrum hætti. Það sem hefði átt að vera stóra verkefnið er hér skilið eftir óleyst að mestu leyti.