145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er nokkuð sem nefndin mun skoða betur. Það er augljóst að með löggjöfinni, ef hún nær fram að ganga í samræmi við það frumvarp sem hér liggur fyrir, er verið að víkka út skilgreininguna á því hvað telst vera allsherjarregla á Íslandi. Allsherjarregla nær þá yfir staðgöngumæðrun með einhverjum hætti, þ.e. íslensk löggjöf tekur staðgöngumæðrun í fangið en vill svo meta hvaða tilvik falla að lögunum og hver gera það ekki.

Í stöðunni eins og hún er núna er sú allsherjarregla við lýði á Íslandi að staðgöngumæðrun er einfaldlega ekki heimil, það kemur ekki til álita. Maður veltir því fyrir sér hvort við séum hreinlega ekki með þessu móti að fjölga vandamálunum í staðinn fyrir að fækka þeim.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, það er full ástæða til að ná utan um það með einhverjum hætti í íslenskri löggjöf hvernig bregðast á við þegar upp koma tilvik af þessu tagi. Nú er það á hendi Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar að taka afstöðu til ríkisfangs og dvalarleyfis og þess háttar og það er kauðskt að mörgu leyti hvernig búið er um það í lögum og það þarf að skoða það sérstaklega. En það prinsipp, þ.e. þegar staðgöngumæðrun er orðin viðurkennd samkvæmt íslenskri löggjöf erum við þar með búin að færast skrefi nær því að það teljist ásættanlegt yfir höfuð að hjón eða par nái sínum persónulegu markmiðum með því að nýta líkama annarrar manneskju til þess. Síðan er það orðið matsatriði og á gráu svæði, eins og hér var talað um áðan.

Ég óska nefndarformönnunum velfarnaðar í því að komast til botns í þessu en mér finnst þetta frumvarp ekki vera til þess fallið að einfalda málið með nokkru móti.