145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er alveg hárrétt, það er í raun og veru verið að víkka út heimildir til þess að koma með börn til landsins. Hér er kafli þar sem farið er yfir þetta, mismuninn á milli ríkja. Ég er búin að nefna Indland, en í Úkraínu, í ríki sem á nú í miklum vanda — það eru miklir erfiðleikar í Úkraínu — er staðgöngumæðrun heimil og „mater est“-reglan gildir ekki. Væntanlegir foreldrar eru skráðir foreldrar barnsins í fæðingarvottorði og barnið fær ekki úkraínskan ríkisborgararétt við fæðingu. Það eru engin takmörk á greiðslum milli aðila.

Segjum sem svo að fólk færi til Úkraínu og kæmi svo hingað og færi fyrir nefndina — þá er ekki um að ræða lög sem eru í samræmi við íslensk lög, ekki frekar en á við um fólk sem hefur verið að koma hingað með börn og hefur farið fyrir dómstóla. Mun nefndin heimila þetta? Mér finnst það ekki augljóst. Segjum sem svo að hún heimilaði það ekki, að barnaverndaryfirvöld komist að því að barninu sé samt sem áður best fyrir komið hjá foreldrum sem eru á fæðingarvottorði þess. Kemur þá ekki upp sú krafa, því að það verður eflaust enginn leikur að finna staðgöngumæður á Íslandi, að það verði rýmkað fyrir svo að foreldrar þurfi ekki að fara fyrir nefndir og dómstóla? Ég er ansi hrædd um það.