145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við því sem hv. þingmaður spyr mig að og ég vil svara — ég tek það skýrt fram að ég vil helst ekki nota svona orð eins og voru notuð og vil því ekki svara þeirri spurningu — þá bannar þetta frumvarp staðgöngumæðrun sem fer í bága við markmið og skilyrði frumvarpsins, greinanna, og þar með staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Þar er jafnframt lagt til að óheimilt verði að leita eftir eða gera ráðstafanir hér á landi til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfylla ekki skilyrði laganna sem við setjum. Þar með lít ég svo á að ólögleg starfsemi, t.d. á Indlandi, mundi ekki falla undir þetta. Það sem ég sagði líka á sínum tíma er að ég vil frekar setja lög hér, leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og setja um það ströng lög til að koma í veg fyrir að einhver samlanda okkar þurfi að fara til að mynda til Indlands og láta geta fyrir sig barn þar við þær aðstæður sem við sáum í umræddri mynd sem ég gerði að umtalsefni áðan. Ef það gæti gerst þá finnst mér það töluvert mikill sigur með svona löggjöf.