145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta sýnir bara að málið á sér margar hliðar og er erfitt í umræðu. Það er erfitt að nota ýmiss konar orð sem við þurfum samt að nota af því að við erum manneskjur, við erum ekki vélar. Þess vegna þurfum við að tala íslensku í þessu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Sér hann fyrir sér að konur almennt á Íslandi muni fara í þá vegferð að verða staðgöngumæður af annarri ástæðu en félagslegum þrýstingi, að einhver kona muni sisvona ákveða einn daginn að hún sé tilbúin að verða staðgöngumóðir fyrir eitthvert foreldri á Íslandi, óháð öllu öðru? Væri það ekki vegna einhvers lags þrýstings, t.d. frá ættingjum, eða af einhvers konar félagslegum orsökum sem hún mundi taka þá ákvörðun? Ég veit að þetta er ekki auðveld spurning.

Svo er annað. Það kemur fram í frumvarpinu að foreldrið sem ætlar að taka við barninu og staðgöngumóðirin geti hætt við. Segjum svo að barnið greinist með erfðagalla og hvorugur aðilinn vilji taka barnið, hvað verður þá um blessað barnið? Ég sé ekki í þessu frumvarpi neitt sem tryggir réttindi barnsins ef bæði staðgöngumóðir og væntanlegt foreldri hafna því. Ef barnið er með erfðagalla eða er fatlað og viðhorf foreldris eða staðgöngumóður gagnvart því breytist, hver á þá að taka við því blessaða barni?