145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nefnilega að það sé mikilvæg spurning hvað sálfræðingar segja um þetta mál vegna þess að ég held að það geti haft mjög mikil áhrif á sjálfsmynd barna. Maður veit ekkert hvernig þau áhrif verða vegna þess að það fer allt eftir því hvernig er sagt frá þessu og hvernig er unnið með þetta. Það er ekkert gefið með hvaða hætti það verður gert. Það er sett í hendurnar á foreldrunum að sjá til þess og það hafa ekki allir hæfileika til þess að gera það eins og best er á kosið, það er einfaldlega þannig. Ég hef áhyggjur af þessum þætti.

Ég hef líka áhyggjur af kostnaðinum, eins og ég kom inn á áðan. Aðilar gera samning sín á milli og gert er ráð fyrir því að kostnaður við læknisþjónustu og eitt og annað verði í þeim samningi. Hvað svo? Ef staðgöngumóðir missir vinnuna, hver greiðir þá húsnæðiskostnað hennar og daglegar þarfir? Hvað ef viðkomandi verður til dæmis sjúklingur í kjölfarið eða öryrki vegna grindargliðnunar eða annars slíks? Slík dæmi eru fyrir hendi, allt of mörg. Þetta er álag á líkama konunnar. Hvar liggur ábyrgðin á því? Verður þá ríkið — ég veit ekki, erum við orðin skaðabótaskyld? Hvernig ætla menn að klára þessi mál? Ég sé ekki, eftir að hafa skautað í gegnum þetta, að menn hafi tekið almennilega á þessu. Ég held að við verðum að fá svör við þessum spurningum vegna þess að það er ekkert einfalt í þessu máli.

Ég vona að nefndin fari vandlega yfir öll þessi álitamál og kalli til sín þá sem eru til þess bærir að svara þessum atriðum vegna þess að ég hef af þessu áhyggjur. Mér finnst (Forseti hringir.) við vera að setja löggjöf sem getur sett allt of marga (Forseti hringir.) í óþægilega stöðu. Við erum með stórar siðferðilegar spurningar undir sem er ósvarað og við getum ekki samþykkt málið (Forseti hringir.) áður en við höfum hnýtt alla lausa enda.