145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem þetta mál er rætt í þingsal. Ég held að það sé rétt hjá mér að síðast ræddum við það í janúar 2014 þegar hæstv. ráðherra flutti okkur skýrslu um málið. Ég hrósaði honum þá og ég ætla að hrósa honum aftur nú fyrir að hafa þá flutt okkur skýrslu um málið sem hann kallaði munnlega skýrslu, við höfum nú reyndar fengið hana skriflega, en það sýnir enn betur vilja hans til að upplýsa okkur um hvar þetta mál væri statt. Þá ræddum við það hér.

Ég held að ég hafi alltaf tekið þátt í umræðu um málið þegar það hefur verið rætt hér. Því er þannig farið með mig að þeim mun meira sem við ræðum þetta mál og þeim mun meira sem ég les um það, þeim mun meira verð ég á móti því. Þegar ég var að hugsa um það í dag, lesa yfir það og blaða í því — að ég ætlaði að fara að tala um það, þá hugsaði ég: Get ég talað um þetta? Ætli ég fari ekki bara að gráta?

Þetta snýst ekki um að við viljum koma í veg fyrir að barnlaus hjón geti eignast barn eða fengið barn til að ala upp og deila ævinni með, þá ánægju sem það veitir fólki. Þetta snýst um það að gera kvenlíkamann að einhvers konar verkfæri — auðvitað ekki hérna, það má ekki segja það vegna þess að hér er talað um velgjörð og reynt að fara yfir það allt og útskýra. Talað er um að gera kvenlíkamann að einhvers konar verkfæri og mér finnst það algjörlega hræðilegt. Og vegna þess að það á að gera það allt svo vel þarf konan að vera hraust. Hún þarf að vera á góðum aldri. Hvað á hún að vera? Á aldrinum 25 til 39 ára, eitthvað svoleiðis. Hún þarf að hafa eignast barn þannig að svo það sé nú alveg klárt að hún geti það yfirleitt. Og það verða að hafa liðið að minnsta kosti tvö ár frá því að hún eignaðist síðast barn vegna þess að væntanlega er talið að það mundi taka of mikið á hana.

Svo er annað sem mér finnst alveg óskaplega skrýtið í þessu frumvarpi, það er að ef kona eða sambýlisfólk eða par eða þeir sem ákveða að leggja út í þessa vegferð saman hafa misst barn verða að hafa liðið tvö ár frá því að þau misstu barnið þangað til þau geta tekið að sér að eignast barn fyrir aðra. Eru þá einhverjir sálfræðingar eða aðrir sem meta það og segja: Já, ef tvö ár eru liðin þá er þetta fólk aftur komið í það form að það getur farið að eignast börn fyrir annað fólk?

Virðulegi forseti. Ég verð bara að segja að þetta er alveg gasalegt, ég nota það orð. Nefnt var fyrr í þessari umræðu að þingið væri komið fram úr sjálfu sér og ég held að það sé einmitt þannig, að við séum komin fram úr sjálfum okkur hér. Frumvarpið byggir á þingsályktun sem byggði að miklu leyti á vinnu starfshóps sem skilaði af sér í árslok 2010. Sá starfshópur komst alveg klárlega að þeirri niðurstöðu að við værum ekki tilbúin til að leiða staðgöngumæðrun í lög; við þyrftum meiri umræðu, við þyrftum sátt í samfélaginu um að það væri leiðin sem við vildum fara. Síðan voru nefnd þar ýmis atriði sem þyrfti að skoða. Nefndarmenn komast að þeirri niðurstöðu að við séum ekki tilbúin til að fara út í þetta. Þá tekur meiri hluti þingmanna af þessum starfshópi sig til og segir: Já, nú ætlum við að skipa annan starfshóp og sá starfshópur á ekki að gera eins og fyrri starfshópur lagði til, þ.e. skoða málið nánar, efna til meiri umræðu og fara ofan í öll þau óskaplega miklu álitamál sem hér eru. Ágætur meiri hluti þingmanna — voru þeir ekki 31 eða eitthvað svoleiðis? (Gripið fram í.) Það má vel vera. Þessir þingmenn klykktu út með því að segja að semja ætti frumvarp sem heimilaði staðgöngumæðrun. Takk fyrir. Sælir.

Ég var þá í velferðarnefnd og var þar framsögumaður fyrir minnihlutaáliti þar sem við vorum algjörlega mótfallin því að semja ætti frumvarp þess efnis. Við vorum með breytingartillögu þar sem við lögðum til að starfshópurinn fjallaði nánar um öll þessi álitaefni. Sú tillaga var náttúrlega felld.

Svo kom frumvarp frá starfshópnum um að kanna ætti hvernig — og þá erum við allt í einu komin í það að búið er að afgreiða öll þessi spursmál. Hvernig verður velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar tryggð? Er því svarað hérna? Er það þáttur í velferð staðgöngumóður að hún sé með heilar tennur og hraust, eins og talað er um hérna, og á besta aldri? Það er svo mikil mannfyrirlitning í þessu frumvarpi, virðulegi forseti, að ég er nánast orðlaus.

Hvernig á að afmarka þann hóp sem heimilt verður að eignast barn með staðgöngumæðrun? Svo kemur tillagan um það. Þá koma hér til dæmis einhleypir karlar, samkynhneigðir karlar og þar fram eftir götunum og fá konu til að ganga með barn fyrir sig. Það var umræða um það áðan þar sem hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir spurði hvort það væri virkilega þannig að við ætluðum að ákveða hvort fólk gæti eignast börn eða alið upp börn eða ekki, og hvar við ætluðum að setja mörkin. Jú, það er alveg klárt í mínum huga hvar ég set mörkin. Ég dreg mörkin þar sem þið látið konu ganga með barnið fyrir ykkur, hvort sem um er að ræða tvo karlmenn, hjón eða einhleypan karl eða hvað það er, þar set ég mörkin.

Svo koma spurningar á borð við: Á að gera kröfu um að bæði staðgöngumóðir og verðandi foreldrar séu búsett hér á landi? Það eru náttúrlega bara smámunir á við allt annað. Hvernig á að koma í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni? Það verður aldrei gert, virðulegi forseti. Ég ætla að staðhæfa það hér að það verður aldrei komið í veg fyrir að fram fari einhverjar duldar greiðslur. Og sumir hafa meira að segja sagt: Er þá ekki bara betra að það sé í hagnaðarskyni en í einhverri velgjörð? Er það ekki betra en til dæmis að móðursystir, sem er fertug, tali við systurdóttur sína, sem er 25 ára, um það? Systurdóttirin elskar þessa móðursystur sína og hún veit að það hefur verið mesta sorg móðursysturinnar að hafa aldrei eignast barn. Svo kemur móðursystirin og segir: Æ, Stína mín, heldurðu að þú mundir nú ekki bara ganga með barn fyrir mig? Ég segi eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir: Fegin er ég að það kemur ekki til mála að ég geti verið í þeim hópi kvenfólks sem fær slíka spurningu.

Síðan var rætt um það rétt áðan hvernig tryggja ætti réttindi barna til að vita um uppruna sinn. Það á að setja lög um að fólk segi frá þessu áður en börnin eru sex ára. Ég segi: Af hverju ekki fyrr en seinna? Þeim spurningum er ekki svarað.

Og síðan: Hvað ef staðgöngumóðir eða verðandi foreldrar skipta um skoðun? Jú, jú, hérna er það sett fram, það er kannski það eina sem er almennilegt í þessu frumvarpi að staðgöngumóðirin geti skipt um skoðun. Ég held að það sé það eina. Ég held að það sé eini ljósi punkturinn í því svartnætti sem við erum með hér fyrir framan okkur, virðulegi forseti.

Ég ætla sannarlega að vona að farið verði ítarlega í gegnum þetta mál í velferðarnefnd. Og ég vona svo sannarlega, virðulegi forseti, að við munum aldrei — aldrei — samþykkja þetta frumvarp í þessum þingsal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)