145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um mjög umdeilt mál sem áður hefur verið til umræðu á þingi og hefur farið, eins og menn hafa vitnað til hér, ýmsar krókaleiðir. Það endaði í vinnuhóp sem fékk það upplegg að skila frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og búa um það eins góðan lagaramma og frekast væri unnt.

Ég tel að enginn lagarammi geti réttlætt það að litið sé á konur sem framleiðslutæki. Ég get ekki í hjarta mínu skrifað upp á það. Ég tel að við eigum að horfa á grundvallaratriðin. Burt séð frá ýmsum greinum, sem styrkja þetta og hitt varðandi þetta umdeilda mál, verður maður að finna í kjarnanum í sjálfum sér og í hjartanu hvort þetta er rétt eða rangt.

Við sem mannverur á þessum hnetti — hve langt eigum við að ganga miðað við hvað vísindin bjóða upp á? Það er hægt að klóna skepnur — hvað eigum við að ganga langt sem manneskjur? Verðum við ekki að hafa siðferðislegan styrk til að draga línuna einhvers staðar og horfa á það hvað er eðlilegt og rétt?

Á hvaða plan erum við að færa konuna sem manneskju í þessu samhengi, að hún sé lögð undir í lagaumgjörð til að ganga með barn eingöngu til þess að gefa það frá sér? Hefði einhvern órað fyrir því fyrir ekki svo löngu síðan að talað yrði um að eðlilegt væri að kona gengi með barn í þeim tilgangi einum að gefa það frá sér? Við þekkjum vel í gegnum aldirnar hörmungarsögur af mörgum konum sem þurftu vegna fátæktar og erfiðra aðstæðna að gefa frá sér börn og sorgin var í hjarta þeirra allt þeirra líf. Ætlum við í okkar nútímasamfélagi, þar sem við búum í vellystingum, að líta á það sem mannréttindi að öllu sé til fórnað til að konur sem ekki geta eignast börn eignist börn, að öðrum konum sé ætlað að lána líkama sinn undir slíka framleiðslu? Ég tel það sem manneskja ekki vera rétt.

Ég styð ýmsar leiðir sem hafa verið farnar en ganga ekki eins langt og þarna er verið að leggja til. Ég hef stutt tæknifrjóvgun og glasafrjóvgun og leiðir í kringum það. Ég tel það annars eðlis. Þá er ekki verið að ganga með barn til að gefa það, heldur fær viðkomandi kona aðstoð til að ganga með barn og tengist því barni eðlilega, líkamlega, en hún þarf ekki að gefa það frá sér að lokinni meðgöngu. Ég veit að það er kannski erfitt mörgum karlmanninum að setja sig í þessi spor, en margir eiga eflaust auðvelt með að gera það, en ég held að flestar konur, sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að ganga með börn, geti ekki hugsað til enda að litið sé á það sem eðlilegan hlut í íslenskri löggjöf að konur séu notaðar í þeim tilgangi að ganga með barn einungis til þess að gefa það síðan frá sér.

Ég er hér með auglýsingu frá árinu 2007 sem ég ætla að vitna til, með leyfi forseta. Þar segir:

„Er einhver þarna sem gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir okkur? Notaður yrði fósturvísir frá okkur. Lagalega séð er ekki hægt að framkvæma þetta hér á landi svo ferlið verður að gerast erlendis. Farið verður með þetta sem trúnaðarmál. Ef þú gætir hugsað þér að skoða þetta með okkur endilega hafðu samband.“

Er þetta það sem við viljum sjá í framhaldinu? Hvernig verður það ferli að nálgast konu til að ganga með barn fyrir sig? Verður það í formi raðauglýsinga, skjáauglýsinga? Eða verður það þannig, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á, að horft verður til fjölskyldunnar í stóra samhenginu og myndaður þrýstingur á konur í stórfjölskyldunni? Eða verður auglýst og er trúlegt að óskyldar konur eða ótengdar konur vítt og breitt á hinu litla Íslandi sitji og bíði eftir að sjá slíka auglýsingu í Morgunblaðinu? Er það nú trúlegt? Það er svo óeðlilegt að stilla málum svona upp að það er með ólíkindum. Vissulega detta manni ýmis orð í hug; í fyrsta lagi „ógeðfellt“. Það felst líka ákveðin mannfyrirlitning í þessu öllu, því viðhorfi að hægt sé að réttlæta þetta með því einu að lagaumgjörðin utan um slíkan gjörning verði eins og best verði á kosið.

Börn eiga rétt á foreldrum; barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna liggur fyrir og ríkar skuldbindingar má finna þar. Í frumvarpinu er vísað til þess að láta megi barn, sem fæðist undir þessum formerkjum, vita þegar það er orðið sex ára hvernig það er til komið og 16 ára hver uppruni þess er. Þetta tímabil þarna á milli, frá sex til 16 ára — ég held að það geti nú reynst erfitt mörgu barninu að vita að það sé komið til á þennan hátt. Þessi hugsun verður kannski nagandi: Á ég að fá upplýsingar um hvaða móðir eða hvaða kona tók þá ákvörðun að ganga með mig til að gefa mig frá sér? Það eru ótal spurningar sem koma inn á líðan sem ekki hefur verið svarað og ýmislegt sem ég held að eigi eftir að hafa sálfræðilegar og félagslegar afleiðingar fyrir barnið og líka fyrir konuna sem gekk með barnið og gaf það frá sér.

Því er stillt þannig upp að kona geti þrisvar sinnum gengið með barn og gefið, að hún þurfi að vera á réttum aldri og við góða heilsu — ég veit ekki hvort ég má segja það úr þessum ræðustól, en þetta er eins og eitthvað sem maður les um kynbætur hjá Búnaðarfélagi Íslands, það er verið að horfa til ræktunar eða einhvers í þá veruna. Að setja konu í þetta samhengi, að hún sé verkfæri til að framleiða barn sem hún á að gefa frá sér — eftir því sem ég hugsa þetta meira og fer að tala um þetta þá finnst mér þetta æ sorglegra. Þetta er þyngra en tárum taki, það verður bara að segjast eins og er.

Við vitum að það er fullt af munaðarlausum börnum úti um allan heim sem þyrftu svo sannarlega á því að halda að þeir foreldrar sem þrá að eignast barn vildu taka við þeim. Ég veit að það er fullt af foreldrum sem hafa farið þá leið og báðir aðilar eru hamingjusamir með það; börnin að lenda á góðum heimilum og foreldrarnir að eignast yndislegt barn á þennan hátt. Ég tel að við eigum að leita allra leiða til að gera ættleiðingarlöggjöfina þannig úr garði að það reynist sem auðveldast að ættleiða barn; auðvitað þarf að tryggja hagsmuni barnsins og allra hlutaðeigandi, en þar er brýnt að sem best sé búið um ættleiðingar þannig að þær séu möguleiki inni í þessari mynd. Einnig er vert að styrkja það umhverfi sem snýr að öðrum leiðum eins og tæknifrjóvgun og glasafrjóvgun og öðru því um líku.

Í þessu frumvarpi er alveg galopið að hægt sé að fara til annarra landa til þessara fátæku kúguðu kvenna vítt og breitt um heiminn sem hafa farið þessa leið til að afla sér lífsviðurværis. Ekkert kemur í veg fyrir að það verði gert áfram. Eða ætla menn þá strax að loka á ýmis lönd sem menn telja að uppfylli ekki þá lagaumgjörð sem hér er? Ég er ekki farin að sjá að það verði gert. Íslenska samfélagið — við erum bara svo fámenn og nálægðin er svo mikil; maður þekkir mann. Það er erfitt að láta þetta gerast hér á landi, staðgöngumæðrun. Með því að vera búin að lögbinda þetta á þennan hátt gæti það orðið algengara að pör ákveði að láta þetta gerast erlendis. Það þarf enginn að segja mér það heldur að þar verði peningar ekki í spilunum þó að einungis sé verið að tala um að þetta sé gert í velgjörðarskyni hér. Ekkert getur komið í veg fyrir að menn greiði fyrir þetta með einum eða öðrum hætti bak við tjöldin og að það komist aldrei upp á yfirborðið.

Konur hafa vissulega rétt til að ráða yfir eigin líkama, ég undirstrika það. Ef kona vill taka þá ákvörðun að ganga með barn fyrir aðra tel ég ekki að það sé réttlætanlegt þó að ég styðji fullkomlega ákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Samkvæmt frjálshyggjusjónarmiðum á alls ekki að banna fólki að gera það sem það vill við líkama sinn, eins og í þessu tilfelli, að það sé frjálst val kvenna hvort þær vilji verða staðgöngumæður eða ekki. Ég tel að það séu svo margar siðferðislegar spurningar þarna á ferðinni sem íslenskt samfélag þarf að ræða í botn, á sviði læknavísinda, á vettvangi siðfræði og bara almennt í samfélaginu. Við eigum langt í land að ræða okkur í gegnum þetta, vegna þess að svona mál hafa ekki verið það mikið í umræðunni og þetta mál á sér svo ótal margar hliðar.

Maður getur haft fullan skilning á því að það er mikil samúð með þeim foreldrum og þeim konum sem geta ekki eignast börn með eðlilegum hætti. En það fæðast líka margir inn í þetta líf og verða fyrir áföllum á lífsleiðinni og það getur enginn reiknað með því að allt gangi slétt og fellt í lífinu, hvort sem það snýr að barneignum eða öðru. Þannig er nú bara lífið. Við þurfum að taka við þeim áföllum sem mæta okkur hverju sinni og gera það besta úr hlutunum. Það verður vonandi aldrei þannig að við getum reiknað með því að hægt sé að fá allt sem okkur langar til í lífinu ef við eigum peninga til þess. Það á líka við um það að ætla að gera konuna að því framleiðslutæki sem ég tel að verið sé að gera hana að í þessu frumvarpi, að ég get aldrei skrifað upp á slíkt. Ég vona að það verði ekki samþykkt hér á Alþingi.