145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[17:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann velti upp mjög mikilvægum spurningum sem ég held að nefndin verði að fara mjög vandlega í gegnum. Mér finnst nefndin ein ekki mega gera það heldur þarf hún að gera það á býsna opinn hátt. Ég veit að fleiri eru sammála því að við þurfum að tala betur við samfélagið um þetta mál. Þetta er ekki eitthvað sem ég held að samfélagið sé endilega tilbúið að taka við einn, tveir og tíu. Menn þurfa að fara mjög vandlega yfir málið og ræða það jafnvel á opnum fundum eða halda góða málfundi og hafa það eins opið og mögulegt er og veita eins mikið af upplýsingum og gerlegt er.

Mig langar að velta nokkrum atriðum upp með hv. þingmanni. Það eru mörg atriði sem ég hef áhyggjur af í þessu máli. Það er eitt sem mig langar að nefna sérstaklega og það er spurningin um að byrja einhvers staðar. Ég skil að menn eru að reyna að setja ákveðnar skorður. Það er ýmislegt ágætlega hugsað í þessu frumvarpi þó að ég sé ósammála gerningnum í heild sinni. Það er til dæmis verið að reyna að setja skorður við því að þetta verði fjárhagslegt samband. Þá segja menn: Það má bara greiða þrisvar sinnum kostnað sem er vel skilgreindur í upphafi. Svo koma aðrir hlutir inn eins og atvinnumissir þessu tengdur, þ.e. viðkomandi þarf að fara af vinnumarkaði fyrir og jafnvel eftir fæðingu. Það getur gerst að kona komi líkamlega það illa út úr barnsburði og verði öryrki og geti ekki starfað eðlilega á vinnumarkaði á eftir. Þá spyr maður sig: Hvað gerist þá? Hver tekur þá við henni? Þessar spurningar eru gríðarlega knýjandi. Þetta gæti valdið því að seinna kæmi hingað inn frumvarp sem þyrfti að taka á þessu með einhverjum hætti og mundi víkka þar með út (Forseti hringir.) heimildir til að auka fjárhagslegt samband milli aðila og þá værum við komin í ógöngur.