145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[17:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er ein af þessum stóru spurningum: Hvert á manneskjan að leita og hvað verður um manneskjuna? Það stendur hvergi hér hvert hún á að leita og þessum spurningum er ekki svarað. Þetta er eitt af því sem ég tel að við verðum að leita svara við í nefndinni. Það er náttúrlega alveg ljóst að þegar er verið að vinna frumvörp þá má gera breytingar á þeim. Þetta eru kannski mest knýjandi spurningarnar, en þær eru ótrúlega margar. Ég er ekki með þær allar en það hefur komið hér fram að þær eru ótrúlega margar. Við verðum að leita svara við þeim og fá svör við þeim. Það verður að vera alveg á hreinu hvað verður um manneskjuna ef eitthvað svona kemur upp á. Hverjir taka við henni? Er það heilbrigðiskerfið eða velferðarþjónustan? Hver tekur við manneskjunni ef hún verður svona brotin eftir þetta?

Ég er algerlega sammála þingmanninum um að það þurfi að fara fram mikil kynning. Auðvitað hefur þetta verið mikið í umræðunni, það þarf ekki nema fletta því upp á Google til að finna ótrúlega mikið af greinum um málið þannig að það hefur svo sem verið rætt gríðarlega mikið í samfélaginu. Ég tel að það þurfi að fara fram mjög víðtæk og góð kynning á þessu máli, t.d. til að ná þeirri almennu samfélagslegu sátt sem er talað um.

Í mínum huga eiga hagsmunir barnsins alltaf að vega langþyngst en auðvitað eru hagsmunir staðgöngumóðurinnar gríðarlega mikilvægir. Þetta er ofsalega erfitt mál. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því, það er óskaplega erfitt að takast á við það. Þetta er þannig vaxið að við verðum að vanda okkur alveg rosalega og taka tillit til allra skoðana og reyna svo að finna bestu hugsanlegu niðurstöðu.