145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[17:18]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Við þurfum að fara í gegnum þetta ferli allt saman og velta því fyrir okkur hvernig við getum gert þetta betur. Það þarf náttúrlega ekki að segja nokkrum einasta manni frá því að úti um allan heim eru börn sem eiga alveg gríðarlega erfitt og eiga hvergi höfði sínu að halla og deyja unnvörpum í flóttamannabúðum og hvar sem er. Oft þegar ég er að velta þessum málum fyrir mér spyr ég mig: Af hverju gerum við ekki betur? Af hverju reynum við ekki einhvern veginn að liðka fyrir því að fólk geti ættleitt börn þannig að það verði mun auðveldara en það er í dag einfaldlega vegna knýjandi þarfar um allan heim fyrir það og ekki síst núna þegar við horfum á fréttir dagsdaglega um þær hörmungar sem flóttamenn og flóttafólk þarf að þola og sá ótrúlegi fjöldi barna sem eru ein á ferð?

Svo snýst þetta náttúrlega líka um að fólk vill fá lítil börn og helst sem yngst. Það eru alls kyns svona hlutir sem koma inn í þetta, sem þarf að skoða. Ég vil að við skoðum þetta heildstætt án upphrópana og í samvinnu. Þetta er það mikilvægt mál að við megum ekki vera að rífast of mikið um það. Það er alla vega mín skoðun. Við verðum að skoða þetta út frá öllum sjónarhornum og hlusta ekki síst á fagfólk sem vinnur við þessi mál, þar á ég meðal annars við siðfræðinga sem hafa bent á að málið sé alveg á mörkunum að vera verjandi. Það hefur komið fram í góðum ræðum í dag. Ég ber þá von í brjósti að við getum rætt þetta skynsamlega.