145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[17:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingsályktun um innleiðingu á þessari tilskipun fór í gegnum utanríkismálanefnd á síðasta þingi og við í velferðarnefnd veittum umsögn um það mál. Í áliti utanríkismálanefndar segir, með leyfi forseta:

„Auk þess liggur fyrir að heimilt verður að synja beiðni um að sækja slíka þjónustu“ — sem sagt heilbrigðisþjónustu yfir landamæri — „annað ef hægt er að veita hana hér á landi innan tímamarka sem réttlæta má læknisfræðilega þegar tekið er mið af aðstæðum hverju sinni.“

Ég vil spyrja ráðherrann því að mér finnst það mikilvægt: Ætlar ráðherrann ekki að nýta þá heimild að það séu ákveðin tímamörk þannig að ef það eru biðlistar og menn sjá fram á að þeir nái lengra en einhverja tiltekna mánuði geti menn fengið þessa heimild en að öðrum kosti ekki? Verða ekki slíkar takmarkanir nýttar? Mér finnst ég ekki sjá það í frumvarpinu en er að velta þessu fyrir mér því að mér finnst það mikilvægt.