145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Verði samið við erlenda kröfuhafa um afslátt frá stöðugleikaskatti er það grundvallaratriði að ekki aðeins hinum erlendu kröfuhöfum verði hleypt út úr gjaldeyrishöftum heldur líka almenningi, fyrirtækjum í landinu og lífeyrissjóðum okkar. Hitt grundvallaratriðið er að í slíkum samningum verði greiðslujöfnunarvandinn leystur en ekki einungis frestað um sjö til tíu ár. Ef við leysum ekki vandann hér og núna erum við að velta honum yfir á framtíðina og næstu kynslóðir.

Í sjöttu eftirfylgniskýrslu sinni frá því í júní sl. segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að miklar væntingar séu um afnám gjaldeyrishafta en takmarkað svigrúm til að létta af hengjunni. Það svigrúm geti enn frekar takmarkast vegna launahækkana og verðbólgu og aukins viðskiptahalla. Þessi orð minna okkur á að ganga verður vel og tryggilega úr skugga um það að fyrir hendi séu langtímaáætlanir um að afsláttur og samningar tryggi jafngilda lausn og stöðugleikaskatturinn gerir, því að ef við höfum ekki á borðinu jafngilda lausn og stöðugleikaskatturinn er í samningum við erlenda kröfuhafa þá eigum við að taka skattinn en ekki velta því sem á vantar á komandi kynslóðir.


Efnisorð er vísa í ræðuna