145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Forsætisráðherra boðar hugsanlegar breytingar á ofanflóðasjóði og Bjargráðasjóði, hvort skynsamlegt sé að sameina þessa tvo sjóði og útvíkka hlutverk þeirra í hamfarasjóð. Ég tel mikilvægt að reyna að útvíkka starfsemi náttúruhamfarasjóða þannig að þeir nái til flóða líkt og á Siglufirði — en við fengum fréttir um það í morgun að bæta á tjónið þar — en einnig yfir sjávarföll sem herja á margar byggðir.

Þingmenn Suðurkjördæmis þekkja vel ágang á fjörur við Vík í Mýrdal og Grynnslin utan við Hornafjörð þar sem Atlantshafið er að henda sandi til og frá. Eftir mikil óveður getur innsiglingin í höfnina á Hornafirði lokast. Þar ætti náttúruhamfarasjóður að bregðast við með fjármagni til þess að rúmlega 2 þús. manna sveitarfélag verði ekki að brothættri byggð. Svo mikilvægur er sjávarútvegur og höfnin á svæðinu.

Þá var í gær einnig stofnuð innan forsætisráðuneytisins skrifstofa þjóðhagsmála. Hlutverk skrifstofunnar verður að greina stöðu og þróun efnahagsmála innan lands og utan, meta horfur í efnahagsmálum og móta tillögur í málaflokknum fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórn á hverjum tíma.

Þá er einnig að nýju settur húsameistari ríkisins. Á fundi í morgun sem bar yfirskriftina Vandað, hagkvæmt, hratt, þar sem markmiðið er að finna leiðir til að lækka byggingarkostnað, var sagt frá fyrsta húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni, sem kom fyrstur manna hérlendis með hugmyndir að húsnæði í þágu verkafólks og efnaminni einstaklinga. Fundurinn í morgun var mjög góður og samhljómur með fundargestum að byggingarreglugerð væri of þröng og stíf, og að sveigjanleiki mundi leysa vandamál ungra og aldinna í húsnæðismálum.


Efnisorð er vísa í ræðuna