145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Preben Jón Pétursson (Bf):

Herra forseti. Eins og oft hefur komið fram fer sá hópur sem lifir eingöngu á fjármagnstekjum ört stækkandi og greiðir þar af leiðandi eingöngu vaxtaskatt. Þessir einstaklingar og fjölskyldur greiða sem sagt ekki útsvar til sveitarfélaganna og taka því ekki þátt í þeim kostnaði sem þar til fellur. Hér má líka nefna þá sem eingöngu lifa á arðgreiðslum en af þeim greiðist heldur enginn skattur til sveitarfélaganna. Í þessum hópi eru oftar en ekki best settu einstaklingarnir í samfélaginu.

Mig langar að koma með eitt dæmi. Fyrirtæki greiðir eiganda sínum 700 þúsund í laun á mánuði. Af þeim borgar einstaklingurinn 200 þúsund í skatta, bæði til ríkis og sveitarfélags. Kostnaður fyrir fyrirtækið er sem sagt 10 milljónir ári og þar af eru greiddar 4,5 milljónir í gjöld og skatta. Nú er hægt að gera þetta á annan hátt. Eigandi verður stjórnarformaður og greiðir sér 150 þús. kr. í laun á mánuði. Hann fundar með starfsfólki sínu eftir þörfum og kostnaður fyrir fyrirtækið eru 2 milljónir en ekki 10. Eftir standa 8 milljónir sem hann greiðir sér í arð að því gefnu að sjálfsögðu að fyrirtækið skili hagnaði. Þar greiðist 20% í fjármagnstekjuskatt sem allt rennur í ríkissjóð. Þá standa eftir rúmar 6 milljónir sem gefa rúmlega 220 þúsund meira í ráðstöfunartekjur fyrir þennan einstakling og ekkert fer í útsvar. Sífellt fleiri að fara þessa leið. Heildarskattar eru þeir sömu hvor leiðin sem er farin en í seinna dæminu rennur allt í ríkissjóð. Það vantar marga milljarða inn í útsvar til sveitarfélaganna og eru mörg þeirra illa stödd, m.a. vegna þessa. Það er ekki langt síðan rætt var í þessum sal að arðgreiðslur hefðu tvöfaldast á milli ára. Það getur ekki talist (Forseti hringir.) sanngjarnt að ekkert af arðgreiðslum og vaxtatekjum renni til sveitarfélaganna. Það verður að breyta þessu, þetta er alvöru vandamál.


Efnisorð er vísa í ræðuna