145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Nú getur löggjafinn ekki vikið sér undan því að reka af sér slyðruorðið gagnvart löggjafanum. Eftir þær umræður sem hér hafa orðið í dag finnst mér að ekki sé hægt annað fyrir forseta Alþingis en að koma hæstv. forsætisráðherra hingað til Alþingis með góðu eða illu til að ræða verðtrygginguna og mögulegt afnám hennar, eða veita honum þingvíti ella. Komið hefur fram að hæstv. forseti þingsins hefur gert reka að því að koma hæstv. forsætisráðherra hingað og hann hefur hafnað því.

Hér hefur það gerst að tveir ef ekki þrír hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa komið og skotið úr öllum fallbyssum sínum og spurt: Hvað líður afnámi verðtryggingarinnar? Hv. þm. Karl Garðarsson hélt góða tölu um húsnæðismál og sagði að þau mundu aldrei batna nema verðtryggingin yrði afnumin. Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir spurði: Á að afnema verðtrygginguna? Og ég spyr: Ætlar forsetadæmið ekki að sjá til þess að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) standi undir þingskyldum sínum og komi hingað (Forseti hringir.) og ræði við þingmenn Samfylkingarinnar um afnám verðtryggingar, (Forseti hringir.) samanber yfirlýsingar hans og samanber samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?