145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði um þetta mál að það væri ekki búið að svíkja neitt varðandi afnám verðtryggingar. En er búið að efna eitthvað? Það held ég varla. Ég tel það með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra treysti sér ekki í þessa umræðu sem var stærsta kosningaloforð flokksins. Hve margir haldið þið að hafi kosið flokkinn einmitt út á þetta? Mér virðist bara vera forsendubrestur hjá þessari ríkisstjórn. Það gengur hvorki né rekur og menn eru alls staðar á byrjunarreit. Kjörtímabilið er langt, það er mikið eftir segja menn, en það er allt á byrjunarreit hjá þessari voluðu ríkisstjórn, hvort sem það er skipan ferðamála, húsnæðismála, eða peningastefnan eða guð má vita hvað. Samgöngumálin núll. Við getum haldið áfram að telja. Fjarskipti núll. Menntamálin núll. Heilbrigðismál núll. (Gripið fram í.) Fæðingarorlofið núll. Þarf að segja meira? Ég held varla.