145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:53]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nú segja það sem nýliði hér að ég er miklu ánægðari með þingstörfin og fundarstjórn hæstv. forseta en ég átti von á þegar ég kom inn á þing. Hér er yfirleitt gott að eiga samtal við þingmenn úr öllum flokkum og allir taka manni vel. Það hefur komið mér á óvart því orðspor Alþingis hefur því miður ekki verið nógu gott út á við en það á ekki við rök að styðjast. Ég segi það bara hér. En það eru einstöku mál sem skera sig úr. Ég verð að segja að hæstv. forseti á samúð mína í þessu máli, að forsætisráðherra skuli með þessum hætti víkja sér mánuð eftir mánuð undan því sem hann sjálfur gerði margoft kröfu um til annarra ráðherra þegar önnur ríkisstjórn var á síðasta kjörtímabili. Ég vil hvetja til þess að þessu linni og forsætisráðherra sjái sóma sinn í að koma hér og taka þessa umræðu.