145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sýndi hér áðan aðdáunarvert þrek við að verja vondan málstað og hefur bersýnilega miklu meiri kjark en hæstv. forsætisráðherra. Hann skirrtist hins vegar við að taka beinlínis undir kröfur okkar um að hæstv. forsætisráðherra kæmi hér og gerði grein fyrir stöðu afnáms verðtryggingar. En ég spyr þá tvo þingmenn sem fyrr í dag héldu innfjálgar og eldistorknar ræður um nákvæmlega þetta mál: Hvað finnst þeim? Gætu þeir hugsanlega aðstoðað hæstv. forseta og flokksbróðurinn til að komast að niðurstöðu? Finnst þeim það ósanngjarnt að við fáum hæstv. forsætisráðherra hingað til að ræða við okkur um afnám verðtryggingar?

Herra forseti. Það er partur af óskráðu regluverki hinnar lýðræðislegu stjórnskipunar að þingheimur veitir framkvæmdarvaldinu aðhald. Partur af því er að inna eftir hvað gangi með framkvæmd stjórnarstefnunnar. Stjórnarstefnan er ljós en hún er ekki framkvæmd. (Forseti hringir.) Og hvað segja þeir hv. þingmenn sem fyrr í dag rifu sig niður í rass um þetta mál? Hvað þarf að gera til að fá hæstv. forsætisráðherra hingað? (Forseti hringir.) Þarf kannski að fá átta ólma hesta og gapastokk til að knýja framkvæmdarvaldið til að standa við þinglegar skyldur sínar?

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða ræðutíma.)