145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[16:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Auðvitað hjó maður eftir því í gær þegar þingmenn Framsóknarflokksins fóru að ræða um afnám verðtryggingar og fylgdu því svo eftir í dag. Það líkist því svolítið að fólk komi hér og reyni að vísa ábyrgð af eigin kosningaloforðum yfir á hinn stjórnarflokkinn í þessu tilfelli. Það er afar óábyrg afstaða að gera slíkt og í þessari viku er ein sérstök umræða, það er allt og sumt. Beðið hefur verið eftir þessari sérstöku umræðu um afnám verðtryggingar við hæstv. forsætisráðherra frá því í febrúar, eins og hér hefur komið fram, og ekki verður undan því skotist að forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, taki þetta mál og standi fyrir máli sínu. Við hvað er hann hræddur? Heimsmetin hafa fallið, að hans mati, í mörgu, en enn sem komið er er þetta heimsmet þó ekki fallið. Það er allt í lagi að hann færi rök fyrir því, hvers vegna ekki hefur tekist að afnema verðtrygginguna á stundinni eins hann ætlaði að gera.

Það vekur svo auðvitað athygli (Forseti hringir.) að hann dregur ýmislegt inn í sitt ráðuneyti og hefur áhuga fyrir því en hefur algjörlega týnt áhuganum í þessu tiltekna máli.