145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[16:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lýst því hér yfir að þeir séu reiðubúnir til að ræða verðtrygginguna. Því fagna ég að sjálfsögðu. En ósk mín, hæstv. forseti, er að tala við formann Framsóknarflokksins, sem er einmitt hæstv. forsætisráðherra, um afnám verðtryggingar. Það vil ég gera því að eitt stærsta kosningaloforð hans og flokksins var að afnema skyldi verðtryggingu að afloknum kosningum. Og hann fer enn þá með verkstjórnarvaldið — þó svo að maður fari að velta fyrir sér hvort fréttirnar í morgun séu kannski stærri en hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson gaf í skyn, kannski er verið að fara í einhver stólaskipti í ríkisstjórninni — en hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer að minnsta kosti enn þá með verkstjórnarvaldið í ríkisstjórn Íslands.