145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[16:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þingmenn Framsóknarflokksins koma hingað sí og æ undir dagskrárliðnum um störf þingsins með tveggja mínútna skrifaða ræðu og fjalla um, eins og lýðskrumarar, afnám verðtryggingar sem ríkisstjórnin hefur lofað. Forsætisráðherra þorir ekki að taka umræðu sem beiðni um hefur núna legið frammi í upp undir ár. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir vitnaði til þess í gær að Framsóknarflokkurinn hefði meira að segja haldið nokkra fundi sem fjölluðu sérstaklega um verðtryggingu og afnám hennar. Þeir fundir voru vel sóttir og Framsóknarflokkurinn vann glæsilega kosningasigur út á þetta atriði, sagði hv. þingmaður. Það er það sem við erum að kalla eftir, stefnumið þessarar ríkisstjórnar og það er hæstv. forsætisráðherra sem er verkstjóri þeirrar ríkisstjórnar og hann er gunga ef hann þorir ekki að koma hér í þingsal og ræða um þetta stefnumið stjórnarinnar og segja þingheimi frá því hvert planið er. Nei, á aumkunarverðan hátt, eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði í gær, er boltanum skellt yfir á hæstv. fjármálaráðherra, sagt að boltinn sé þar.(Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að segja það sem ég hugsa.