145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar vegna breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Eins og þingheimur þekkir nokkuð vel hefur málið verið talsvert til umræðu á hinu háa Alþingi en einnig í sjálfri utanríkismálanefnd. Eins og þingheimur þekkir einnig er frumvarpið hér til umfjöllunar í annað sinn. Samhljóða frumvarp og efnislega nákvæmlega eins var til umræðu á síðasta þingi en var ekki tekið til 2. umr. eins og hv. þingmenn þekkja. Þá var hins vegar farið nokkuð nákvæmlega í gegnum málið í hv. utanríkismálanefnd og mér telst svo til að málið hafi verið rætt í þingsal í um 22 klukkustundir, en það var einnig til umfjöllunar á 12 fundum utanríkismálanefndar.

Ég ætla að gera grein fyrir áliti meiri hlutans. Undir það rita allir hv. þingmenn meiri hlutans sem sæti eiga í nefndinni, en hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gerir það með fyrirvara þannig að því sé til haga haldið.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund í þessari atrennu nokkra fulltrúa. Málið var sent til umsagnar til allra þeirra sem áður höfðu skilað umsögn og þeir sem sendu umsagnir við málið á fyrri stigum á fyrra þingi áréttuðu þær.

Í þessari atrennu núna hefur nefndin fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson, Harald Aspelund, Helgu Hauksdóttur, Auðbjörgu Halldórsdóttur og Þórarinnu Söebech frá utanríkisráðuneytinu, Engilbert Guðmundsson og Ágústu Gísladóttur frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Daða Má Kristófersson og Jónínu Einarsdóttur frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands og síðan Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Þóri Guðmundsson frá Rauða krossinum, en eins og hv. þingmenn þekkja ritaði hann skýrslu er tengdist þessum málum og frumvarpið byggir meðal annars á niðurstöðu hans.

Eins og ég sagði áðan bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Rauða krossinum, starfsfólki Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þetta eru þeir aðilar sem einnig sendu inn umsagnir við málið á fyrra þingi og í þeirra umsögnum núna kom fram árétting á fyrri afstöðu enda er málið efnislega eins.

Til glöggvunar komu margir þeir sömu og komu þegar málið var rætt á fyrra löggjafarþingi núna á fund hv. utanríkismálanefndar en einnig ýmsir fleiri þannig að ég tel ástæðu til að greina frá því hverjir komu. Það voru frá utanríkisráðuneytinu Kristján Andri Stefánsson, María Erla Marelsdóttir, Harald Aspelund, Helga Hauksdóttir, Matthías Geir Pálsson, Þórarinna Söebech og Auðbjörg Halldórsdóttir. Engilbert Guðmundsson, Hannes Hauksson og Ágústa Gísladóttir komu frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Atli Viðar Thorstensen, Hermann Ottósson og Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum, Daði Már Kristófersson frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Áður hafði nefndin fengið kynnta skýrsluna sem ég nefndi áðan, Þróunarsamvinna Íslands: Skipulag, skilvirkni og árangur, frá júlí 2014 sem var grunnur að vinnu starfshópsins sem vann frumvarpið. Þá bárust nefndinni á 144. þingi umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Rauða krossinum og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Eins og hv. þingmenn þekkja ágætlega er markmið frumvarpsins að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og gera stefnumótun málaflokksins markvissari. Breytingar sem lagðar eru til á lögum nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, snúa aðallega að fyrirkomulagi og skipulagi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í þá veru að öll starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði færð inn í utanríkisráðuneytið. Þetta þekkjum við öll og einnig að um þetta hafa verið og eru skiptar skoðanir meðal þingmanna. Þess vegna hefur eðlilega farið fram talsverð umræða um það, bæði á vettvangi nefndarinnar og hér. Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á stærð, samsetningu og hlutverki þróunarsamvinnunefndar sem ætlað er að vera ráðherra til ráðgjafar varðandi stefnumótun á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Jafnhliða því yrði núverandi samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu lagt niður. Lagt er til breytt fyrirkomulag hvað varðar stefnu íslenskra stjórnvalda á sviði þróunarsamvinnu og framlagningu hennar fyrir Alþingi. Loks eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Störf í þágu friðar falla undir þróunarsamvinnu og þar með öll starfsemi íslensku friðargæslunnar. Samkvæmt frumvarpinu er aðgerðum sem taldar eru upp sem friðargæsluverkefni breytt til þess að mæta þeirri þróun sem átt hefur sér stað í því alþjóðlega umhverfi sem friðargæslan starfar í.

Eins og þingmenn þekkja líka og frumvarp þetta byggir talsvert á var það þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, sem vann sérstaka rýni á umgjörð þróunarsamvinnu Íslands árið 2013 og voru niðurstöður jákvæðar. Ýmsar tillögur komu þó fram, m.a. um að íslensk stjórnvöld samræmdu betur starf á tvíhliða og fjölþjóðlegum vettvangi og könnuðu jafnframt hvort skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu á Íslandi væri eins og best væri á kosið. Í kjölfar þess, eins og ég greindi frá áðan, var Þóri Guðmundssyni hjá Rauða krossi Íslands falið að gera greiningu á aðferðafræði, skipulagi og fyrirkomulagi á framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands og var ein af niðurstöðum hans sú að mestum árangri og skilvirkni yrði náð með samhæfingu þróunarsamvinnu á einum stað.

Virðulegur forseti. Það er þessi kjarni sem umræðan meðal nefndarmanna og eðlilega meðal þingmanna hefur aðallega snúist um, hvort það sé þess virði að flytja verkefni stofnunarinnar inn í utanríkisráðuneytið, hvort það leysi þau vandamál sem því er ætlað að leysa og hvort það sé tryggt að þannig sé hlutum best fyrir komið. Um það hafa sannarlega verið skiptar skoðanir og rök verið færð á báða bóga hvað það varðar.

Ég vil líka geta þess, virðulegur forseti, að aðkoma Alþingis að þessum verkefnum breytist nokkuð með frumvarpinu. Með frumvarpinu er lagt til að breytt þróunarsamvinnunefnd leysi af hólmi þá þróunarsamvinnunefnd og samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem eru starfandi. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi kýs Alþingi sjö fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd auk þess sem ráðherra tilnefnir fulltrúa til að starfa með nefndinni. Þróunarsamvinnunefnd er ætlað að tryggja aðkomu fulltrúa þingflokka að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um alþjóðlega þróunarsamvinnu til lengri tíma. Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu er hins vegar skipað 17 fulltrúum, m.a. frá íslenskum mannúðarsamtökum í þróunarsamvinnu og hjálparstarfi, fræðasamfélagi og aðilum vinnumarkaðarins auk fulltrúanna sjö úr þróunarsamvinnunefndinni áðurnefndri. Ráðinu er ætlað að sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku, m.a. um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu.

Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að aðeins einn aðili, þ.e. breytt þróunarsamvinnunefnd, verði til ráðgjafar um alþjóðlega þróunarsamvinnu í stað tveggja áður. Samkvæmt þeirri tillögu skulu fimm alþingismenn, í stað fulltrúa þingflokka, sitja í þróunarsamvinnunefnd ásamt fulltrúum með rætur í háskólasamfélagi, vinnumarkaði og borgarasamtökum, auk formanns. Sterk aðkoma Alþingis yrði því tryggð.

Síðan eru ákveðin atriði þarna sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega í. Það kemur fram í umræddu nefndaráliti sem byggir að sjálfsögðu á nefndarálitinu frá síðasta þingi en fjallar um þætti er tengjast þeim vilja sem birtist í frumvarpinu sem er sá að gera þessi verkefni eins skilvirk og hagkvæm og mögulegt er og auðvitað fyrst og síðast með það að markmiði að ná þeim árangri sem við öll viljum stefna að í þessum málaflokki.

Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur því áherslu á að nauðsynlegt sé að gæta að þessari hagkvæmni og skilvirkni í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands svo hún verði rekin með sem mestum árangri. Nú þegar fyrir liggur vilji stjórnvalda til að hækka framlög Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu er brýnt að ganga frá framtíðarfyrirkomulagi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu innan íslensku stjórnsýslunnar þannig að hún verði með sem bestu móti. Meiri hlutinn telur að svo sé með þeim breytingum sem lagðar eru til í fyrirliggjandi frumvarpi og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Til áréttingar og ítrekunar tek ég fram að undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur og er framsögumaður, hv. þingmenn Elín Hirst, Karl Garðarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Vilhjálmur Bjarnason, með áðurnefndum fyrirvara.