145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að málið er mikilvægt og mikilvægt að reyna, eins og frekast er unnt, að ná sátt í slíkum málum eins og flestum öðrum. Hins vegar er það oft svo í málum, það þekkir hv. þingmaður jafn vel og sú sem hér stendur, sem oft hef reynt að beita mér fyrir sátt í málum sem ekki hefur náðst að vinna þannig að það yrði lokaniðurstaðan. Það er auðvitað alltaf miður, en það breytir engu um það að málið er búið að fá þá efnislegu meðferð sem ætlast er til og málið er fram komið, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan, í annað sinn og það er vilji meiri hluta stjórnarmeirihlutans hér á þinginu að afgreiða málið með þessum hætti. Ég treysti því að við hv. þingmenn höfum þann þroska til að það setji ekki verkefni þessarar mikilvægu stofnunar í uppnám. Við hljótum að gæta þess að þegar búið er að taka ákvörðunina þá vinnist það þannig að allir geti ágætlega við unað.

Hvað varðar greinargerð DAC þá tek ég einnig undir með þingmanninum í því, ekki það að sú greining var unnin á því ári sem hv. þingmaður nefndi. Í framhaldi af því er unnin skýrsla, sem ég vitnaði til hér áðan, þar sem mælt er með ákveðinni leið. Það hefur komið skýrt fram á fundum nefndarinnar, og það er skoðun þeirra sem leggja frumvarpið fram, að það sé ekki afdráttarlaust sagt að svo sé, vegna þess að DAC mælir ekki með einni leið annarri fremur, svo að því sé til haga haldið. Það hefur ítrekað komið fram í máli þeirra embættismanna sem við höfum rætt við og þeirra fulltrúa sem við höfum rætt við. DAC blandar sér aldrei í það hvernig fyrirkomulagið er í hverju landi og hefur raunverulega enga skoðun á því. Bent var á það í skýrslu DAC að Ísland þyrfti að leita leiða til þess að tryggja aukna hagkvæmni og skilvirkni, en þeir ráðleggja landi ekki eina leið annarri fremur.