145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því og hef orðið þess mjög sterkt áskynja, bæði hér í þingsal og á fundum utanríkismálanefndar, að menn eru ekki sammála. Þingmenn eru ekki sammála um hvernig halda beri á viðfangsefninu. Ég hef hins vegar líka skynjað mjög eindreginn og sterkan vilja allra þingmanna til að tryggja að það hafi ekki áhrif á málaflokkinn sem slíkan eða setji hann í uppnám. Hér munum við án efa takast á um það hvort fyrirkomulagið er betra. Þjóðirnar í kringum okkur hafa farið misjafnar leiðir. Það er engin ein algild regla eða leið um hvernig haga beri þessum málum. Þetta er niðurstaða stjórnarmeirihlutans og ég árétta það sem ég sagði áðan að á fundi nefndarinnar voru sérstaklega ræddar athugasemdirnar vegna lagafrumvarpsins og greinargerðarinnar, um það hvort þar væri DAC að segja eina leið öðrum fremri. Það er ekki en þar var bent á að ýmislegt mætti betur fara á sviði stefnumótunar, framlaga og fyrirkomulags og síðan kemur fram, í skýrslu umrædds Þóris Guðmundssonar, að það sé meginniðurstaða (Forseti hringir.) hans að samhæfing skuli vera á einum stað og farsælla væri að verkefnin væru undir einum hatti. Og þess vegna er gengið til verksins.