145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki þekki ég öngstræti utanríkisráðuneytisins eins og fyrrverandi utanríkisráðherra en ætla ekki að gera neinar athugasemdir við söguskýringu hans. Það vottar nú fyrir því að það fari um mann hlýir straumar þegar fyrrverandi utanríkisráðherra talar með þessum hætti um félaga okkar í Sjálfstæðisflokknum, ekki hefur hann alltaf verið sammála þeim einstaklingum sem hér voru nefndir. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni og fyrrverandi hæstv. ráðherra að um þetta hafi verið skiptar skoðanir og það er líka rétt hjá hv. eða hæstv. ráðherra — nú er ég farin að ruglast alveg með það hvort Össur Skarphéðinsson er þingmaður eða ráðherra, hann er einhvern veginn hvort tveggja í huga okkar allt of lengi — en ég held að sú niðurstaða sem hann nefndi sé sú sama, hún er í raun og veru eins núna vegna þess að í skýrslu Þóris Guðmundssonar er bent á það að hin leiðin hefði verið fær. Sameiginleg niðurstaða allra er því þessi: Við þurfum að sameina þetta á einn stað. Það er farsælla að hafa þetta á einum stað en mörgum, við getum þó verið sammála um það.

Þetta er hins vegar niðurstaðan núna og ég ber mikla virðingu fyrir Þóri Guðmundssyni sem lagði áherslu á það og greindi nefndinni mjög nákvæmlega frá því hvers vegna hann teldi að þetta væri farsælasta leiðin. Hann benti á að sérfræðingar hjá mörgum þjóðum sem hann hefði talað við og leitað til teldu að það væri mjög farsælt skref, gott skref að taka þessi verkefni og setja þau undir utanríkisráðuneytið. Þess vegna var það niðurstaða hans eftir þessa löngu yfirferð sína að þetta væri gagnlegt. Ég skal viðurkenna að ég þekki ekki til vinnu fyrrverandi aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar þegar hann var í utanríkisráðuneytinu, ég þekki ekki þá skýrslu, en mér heyrist að niðurstaðan sé sú sama, að það þurfi að sameina þetta á einum stað. Þetta er niðurstaðan og þetta er sá vilji sem stjórnarmeirihlutinn leggur áherslu á að þessu sinni. Ég hvet bara Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi hæstv. ráðherra og núverandi hv. þingmann, til þess að nýta þekkingu sína og reynslu í málaflokknum og leita einnig leiða til sátta og tryggja það að það geti gengið (Forseti hringir.) eftir með þessum hætti.