145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er tekið til umræðu mál um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Ísland o.fl. (skipulag), sem er 91. mál á þessu þingi en hefur fengið sérstaka flýtimeðferð. Hv. formaður utanríkismálanefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, flutti hér nefndarálit sem ég verð að segja að mér fannst frekar rýrt. Þess vegna spyr ég mig hvort hv. formaður, nýskipaður formaður utanríkismálanefndar hafi þegar þetta mál var rætt hér og vísað til utanríkismálanefndar, þar sem það hefur verið í hálfan mánuð eða svo, fengið sérstaka skipun frá utanríkisráðherra um að klára málið strax, með öðrum orðum að það fengi þá sérstöku flýtimeðferð sem það fær hér. Ég spyr vegna þess að mér er kunnugt um það að í níu manna utanríkismálanefnd eru þrír nýir meðlimir, þar á meðal formaður nefndarinnar. Þurfti ekki meiri tíma? En spurning mín er alveg klár til hv. þingmanns: Fékk formaður nefndarinnar sérstaka skipun um að klára málið strax?