145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég spurði um flýtimeðferðina var sú að öllum er ljóst að haldinn var sérstakur aukafundur í utanríkismálanefnd á föstudegi til þess að rífa málið út úr nefndinni. Það finnst mér mjög óeðlilegt þegar ekki er liðinn lengri tími frá því að þing var sett, ef það hefur legið svo mikið á að kalla til fundar, sem var gagnrýnt vegna annars stórfundar sem var haldinn í bænum og margir þingmenn vildu vera á. Það sem ég tók líka eftir var að nýr formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, taldi mjög mikilvægt, það var hennar skoðun, að ná sátt um þetta mál, eins og um öll mál sem við ræðum hér. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og ég hef í þingstörfum mínum þegar mikil ágreiningsmál eru til umfjöllunar reynt að koma á sáttum í málum. Ég get nefnt umdeilt mál, lög um rammaáætlun, sem var gagnrýnt hér og mjög skiptar skoðanir voru á, en okkur tókst í þáverandi iðnaðarnefnd að leiða málið til lykta þannig að allir þingmenn sem voru í þingsal greiddu atkvæði með lögunum. Því spyr ég hv. þingmann og formann utanríkismálanefndar, út frá því sem hv. þingmaður sagði áðan um að æskilegt væri að ná sátt milli þeirra sem deila um þetta mál, hvort hún telji það einnar messu virði og hvort það komi til greina að bíða eftir áliti svokallaðrar DAC-nefndar um jafningjarýnið og að lögin taki þá ekki gildi fyrr en sex mánuðum, skulum við segja, eftir að það kemur fram. Þannig getur þingnefnd fengið skýrsluna og skoðað hana og farið yfir málið og annaðhvort gert breytingartillögur um það eða engu breytt og lögin (Forseti hringir.) tækju gildi. Telur hv. þingmaður það koma til greina með tilliti til þess sem hún sagði áðan um að mjög mikilvægt væri að reyna að ná sátt um málið?