145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það svo að meira segja þau okkar sem hafa sérstakan áhuga á þeirri leið í stjórnmálum að finna sáttina, ef hún er til staðar, verða stundum að átta sig á því að sáttin er ekki til staðar. Mitt mat eftir umræðu um þessi mál og eftir að hafa fylgst með henni úr þingsal, bæði á síðasta þingi og aftur núna á haustmánuðum, er að mjög erfitt sé að reyna það og ég held að það sé, og við vitum það öll, næsta ómögulegt. (Gripið fram í.) Við í stjórnarmeirihlutanum leggjum málið fram og meiri hluti nefndarinnar vegna þess að við teljum umræðu um málið lokið þar. Við teljum að búið sé að fara yfir það með þeim hætti sem nefndin getur og niðurstaða liggi fyrir. Varðandi aukafund í utanríkismálanefnd sem haldinn var síðastliðinn föstudag geta menn alveg tekist á um það hvort halda eigi fundi á þessum tíma o.s.frv., ég ætla ekki að hafa sérstakar skoðanir á því, en það var beiðni minni hlutans að kallaðir yrðu frekari gestir til nefndarinnar og gestirnir gátu einungis komið frá klukkan níu til korter fyrir tíu þennan morgun. Það er ástæðan fyrir því að fundurinn var haldinn á þessum tíma. Ég ber mikla virðingu fyrir mikilli virðingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar fyrir störfum hæstv. forseta Íslands en það var að þessu sinni ástæða til að fallast á þá beiðni minni hlutans að fá að hitta tvo aðila til viðbótar, sem urðu síðar fjórir á fundinum. Það er ástæðan fyrir tímasetningu fundarins. Það var orðið við þeirri beiðni og mitt mat er að málið sé fullrætt í nefndinni og nú sé það þingsins að taka það til afgreiðslu.