145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sannarlega. Ég held að það sem liggur að baki þessari tillögu sé þó ekki að vinna að neinu slíku. Ég ætla hvorki starfsmönnum ráðuneytisins né hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar það. En sporin hræða. Við urðum þess áskynja við umfjöllun nefndarinnar. Gestir komu á fund hennar bæði í fyrra og einnig núna sem upplýstu um það að svipaðar breytingar í löndum sem við berum okkur saman við og veita mikið fé til þróunarsamvinnu hefðu lent í þeirri stöðu að upp hafi komið grunur um að þarna samkrulluðust hagsmunir. Það er algjörlega ljóst að til dæmis í okkar tilviki er utanríkisráðuneytið ekki bara ráðuneyti utanríkismála heldur líka utanríkisviðskipta, sem er alls ekki alls staðar. Um leið og þróunarsamvinna er komin undir sama þak og utanríkisviðskipti er hætta á að sumar af syndum fortíðarinnar taki sig upp sem draugar nútíðar. Ég ætla ekki að rekja dæmin. Hv. þingmaður þekkir þau. Svo þar er sannarlega hætta.

Annað sem er líka mjög neikvætt við þetta er að ég tel að með slíkum flutningi sé þróunarsamvinna komin í allt annað umhverfi. Innan ráðuneytisins ríkir flutningsskylda. Það þýðir að starfsmenn stoppa tiltölulega stutt við á hverju sviði. Þeir verða fjölfræðingar. Þeir eru kannski tvö til þrjú ár, mest fjögur ár, á einum tilteknum stað. Þekking þeirra verður kannski ekki jafn sérhæfð og ella. Þróunarsamvinnustofnun er byggð á sérhæfðri þekkingu. Það þýðir ekki að hafa einhverja generalista. Þekkingin verður grunnristari. Hún verður smurð heldur þynnra en áður. Það getur komið niður á þróunarsamvinnunni að þessum hlut breyttum.

Þetta var það sem mjög margir vöktu athygli á og lýstu ákveðnum kvíðboga gagnvart. Ég held að menn hefðu átt að hlusta á það.