145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sagan er oft lykill að skilningi á samtímanum. ÞSSÍ var stofnuð fyrir 34 árum af glæsilegum stjórnmálamanni, umdeildum, sem mjög kvað. Hann nýtur líka þess sess í sögunni að hann var formaður Framsóknarflokksins. Það var Ólafur Jóhannesson sem ruddi brautina fyrir ÞSSÍ. Ákvörðunin hafði að vísu verið tekin skömmu áður á síðustu metrum viðreisnarstjórnarinnar svokölluðu. Það var Alþýðuflokkurinn sem lagði málið fram eða barðist fyrir því en sannarlega var það Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sem markaði hin fyrstu skref og fylgdi þeim eftir af öllum sínum alkunna þunga. Þróunarsamvinnustofnun þróaðist með svipuðum hætti og aðrar stofnanir. Hún var sennilega sett á stofn vegna þess að við fylgdum öðrum Norðurlandaþjóðum varðandi þróunarsamvinnu. Þar voru slíkar stofnanir.

Á hinum síðustu árum má segja að þessi umræða hafi komið reglulega upp. Ég hef greint frá minni reynslu af þessu sem var sú að ég var ekki búinn að vera viku í ráðuneytinu þegar þessi hugmynd var komin inn á borð með fallegum vel rökstuddum greinargerðum. Ég þekkti málið. Ég hafði verið í þinginu þegar þetta sama mál hafði komið, eins og núna, alla leið inn og verið ýtt burt af þinginu. Þingið vildi ekki þessa breytingu.

Síðan er það auðvitað mjög merkilegt í þeirri sögu sem við höfum rakið í þessari umræðu að þegar hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson fór fyrir þeim flokki manna í utanríkisráðuneytinu sem Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, fékk til þess að skoða þessa hugmynd þá sneri hann henni algjörlega við, komst að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að styrkja málaflokkinn, en ekki með því að flytja bara þau tvíhliða þróunarverkefni sem væru í utanríkisráðuneytinu heldur öll, líka hin marghliða, til Þróunarsamvinnustofnunar og styrkja hana verulega. Það væri róttækt breyting, þó ekki eins róttækt og þessi, og hana (Forseti hringir.) ættu menn að skoða.

Þetta er hinn sögulegi aðdragandi. Þetta er líka hægt að lesa í opinberum skjölum gagnstætt því sem (Forseti hringir.) einn þingmaður sagði hér áðan.