145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst ekki tími til þess að svara síðari spurningu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar hér í fyrra andsvari hans um Jarðhitaskólann. Sama gildir auðvitað um hina skólana þrjá sem eru líka undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Þeir eru allir kostaðir af þróunarfé og verða áfram til. Þeir hafa aldrei verið undir Þróunarsamvinnustofnun. Þeir hafa með vissum hætti flotið á milli og við höfum ekki einu sinni náð því af tæknilegum ástæðu að gera þá að sérstökum sameiginlegum fjárlagalið. En þeir eru óhultir að öðru leyti en því að þeir hafa náttúrlega líka orðið fyrir barðinu á niðurskurði þessarar ríkisstjórnar. Hún hefur svikið skuldbindingar okkar gagnvart fátækustu þjóðum heims um meira en 4 milljarða frá því sem samþykkt var hér 2011 með atkvæðum allra þingmanna, líka Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Varðandi það sem við erum að leggja til þá stefnum við að því að ná 0,7%. Það eru fáar þjóðir sem ná því. Undir forustu íhaldsmannsins Camerons hafa Bretar slegið í með aðdáunarverðum hætti. (Forseti hringir.) Þeir settu til dæmis mökk af peningum í glæsilega bólusetningarherferð um alla Afríku á tímum niðurskurðar.