145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég rek augun í texta í frumvarpinu um það mál sem fjallað er um hér, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu flytjast verkefni ÞSSÍ frá stofnuninni til ráðuneytisins og stofnunin er lögð niður. Starfsmenn flytjast við þessa breytingu í starfi frá ÞSSÍ til ráðuneytisins, en því fylgja óhjákvæmilega breytingar á daglegum störfum allra þeirra er starfa á sviði þróunarsamvinnu hjá ráðuneytinu.“ — Og hér er mikilvægi punkturinn: „Ekki er um að ræða breytingar á stefnu, markmiðum eða verklagi í þróunarsamvinnu Íslands, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.“

Ef leggja á stofnunina niður, færa alla starfsmenn inn í ráðuneytið og samt ekki breyta neinu, þá skil ég ekki alveg hvernig það virkar. Og sérstaklega er erfitt að skilja það með tilliti til texta sem er síðar í frumvarpinu þar sem kemur fram að um rosalega mikla stefnubreytingu verði að ræða, breytingu á framkvæmd, betri heildarsýn og ýmsar breytingar. Samt er verið að segja að ekki sé um að ræða breytingar á stefnumarkmiðum eða verklagi. Hv. þingmaður gæti kannski aðeins útskýrt þetta fyrir mér.