145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo með tungumálið, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson bendir á hér, að stundum finnst manni svart merkja hvítt og hvítt svart eftir því sem hver segir. Þetta minnir mig einna helst á það þegar ég fór að bankaútibúinu mínu sem hafði þá verið lokað og þar stóð: Kæri viðskiptavinur. Þessu útibúi hefur nú verið lokað til þess að við getum bætt þjónustuna við þig enn meir og boðið þér að koma í næsta útibú sem er lengst í burtu. Þetta var allt gert til að bæta þjónustuna við mig, viðskiptavininn. Það má nota tungumálið til ýmissa hluta og sérstaklega til þess að segja eitthvað sem er þveröfugt við það sem reynist vera.