145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir um málaþurrð ríkisstjórnarinnar. Því miður liggja ekki frammi mörg mál frá ríkisstjórninni þrátt fyrir að verkefnin í samfélaginu séu ærin. En það segir auðvitað sína sögu um hversu mikinn forgang þetta áhugamál utanríkisráðherrans hefur á dagskrá þingsins, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrir sitt leyti fallist á að umræðum um „brennivín í búðir“, sem ekki er lokið, sé frestað, og að þetta mál sé tekið fram yfir það. Þeir sem hér þekkja til vita auðvitað að það þarf býsna mikið til að Sjálfstæðisflokkurinn hleypi einhverju fram fyrir „brennivín í búðir“.

En hvað varðar skipan friðargæslunnar og þróunarsamvinnunnar held ég að í meginatriðum sé sjónarmiðið það að því sé best komið í sjálfstæðri faglegri stofnun sem vinni að málefninu. Það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að ráðherrann geti haft mótandi áhrif á starfsemina. Auðvitað er það verkefni pólitísks kjörins ráðherra að hafa mótandi áhrif á starfsemi þá sem undir hann heyrir, en það er þá fyrst og fremst með lagafyrirmælum og reglugerðum en ekki með hinni daglegu stjórnsýslu. Það skiptir miklu máli að halda vel utan um fyrirkomulag eins og er varðandi Þróunarsamvinnustofnun, sem gefið hefur góða raun.