145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef það tíðkaðist hér, eins og ég hef heyrt um annars staðar, að menn ræði hreinlega dagskrána í byrjun hvers dags og að stundum tæki hún þá mið af því sem er í gangi frá degi til dags, væru störfin hér sjálfsagt mikið skilvirkari. En við gætum sjálfsagt rætt mjög mikið, mjög ítarlega og mjög lengi um það hverju mætti breyta hér til að bæta störfin á Alþingi. Svo mikið er víst að það er ýmislegt.

En áherslan sem lögð er á þetta mál þykir mér sérkennileg, sér í lagi af þeim ástæðum sem hv. þingmaður nefndi. En það er ekki eins og þróunarsamvinnumálin séu fullkomin eins og þau eru, burt séð frá þessu máli. En maður hefði haldið að það væri eitthvað annað sem brýnna væri að laga og annað sem væri meira að þegar kemur að málaflokknum, einkum það að við höfum ekki enn náð því markmiði að leggja 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunaraðstoðar.

Frumvarpið er að sögn sett fram til að auka hagkvæmni, en samt á það ekki að hafa nein áhrif á ríkissjóð. En mundi maður ekki frekar vilja ræða mál sem hefði áhrif á ríkissjóð, þá neikvæð áhrif á ríkissjóð en jákvæð áhrif á málaflokkinn? Það er einhvern veginn þannig að menn eru alltaf til í að hjálpa þar til þeir þurfa að borga fyrir það og alltaf til í að leysa vandamálin svo lengi sem það kostar ekki neitt. En auðvitað er það ekki þannig. Það kostar að bjarga mannslífum og það verður bara að hafa það.

Ef hið háa Alþingi tæki fyrir þau verkefni sem liggja fyrir værum við komin mun nær því að leysa þau vandamál en með því að taka fyrir þetta mál sem ég veit ekki til að sé vandamál yfir höfuð.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við ættum að forgangsraða þessum málum þegar kemur að ÞSSÍ og þróunarsamvinnumálunum almennt?