145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að auðvitað er verkefnið að auka við þróunarsamvinnuna. Það blasir við hverjum manni, ekki síst þegar staðan í flóttamannamálum í heiminum er eins og við höfum orðið svo áþreifanlega vör við á undanförnum missirum. Við þurfum að leggja meira af mörkum, Íslendingar. Við njótum þeirra miklu forréttinda að vera búsett hér. Við njótum þeirra miklu lífsgæða sem í því felast og við þurfum að láta af hendi rakna til þeirra sem ekki eru jafn gæfusamir.

Það snýst ekki bara um fjármuni vegna þess að við Íslendingar erum svo lánsamir að búa yfir margvíslegri þekkingu sem hefur hjálpað okkur til að koma til bjargálna á undraskömmum tíma, á liðlega hálfri öld í rauninni; þekkingu í sjávarútvegi, þekkingu í orkuiðnaði, þekkingu í heilbrigðismálum og margvíslegri annarri þekkingu sem við getum miðlað svo miklu meira og betur til góða fyrir svo marga og um leið til góða fyrir okkur sjálf, sannarlega. Það er auðvitað þar sem áherslan á að vera en ekki á það að taka þá góðu stofnun, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, og stinga henni inn í einhverja deild í utanríkisráðuneytinu.