145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get lítið annað en tekið undir það nema bæta því við að samkvæmt sömu þingsályktun, sem mér þykir mjög vænt um að var samþykkt hér samhljóða, þá stóð meira að segja til að innan tíu ára frá þeim tíma, sem væri þá 2021, innan sex ára frá deginum í dag, þá ætti Ísland að standa framar þessu markmiði og leggja til meira en 0,7% af vergum þjóðartekjum. Það þykir mér háleitt markmið en virðingarvert, enda var það það sem Alþingi samþykkti samhljóða á seinasta kjörtímabili. Sömuleiðis kemur fram að verði hagvöxtur meiri en þá var spáð komi framlögin til endurskoðunar.

Nú er augljóst að hagvöxtur er meiri en menn hljóta að hafa spáð á þeim tíma. Mér finnst það hljóta að vera enda er núna uppgangur í efnahagnum. Er það ekki enn fremur tilefni til þess að einbeita sér að þessu markmiði með hliðsjón af því að við höfum alls ekki staðið við okkar eigin gefnu markmið eins og stendur?