145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að hann hefði setið í utanríkismálanefnd hér áður. Ég er nýr hérna og þarf að koma mér aðeins inn í málið. Það er ágætlega stórt og fyrirferðarmikið mál að leggja niður heila stofnun eða leggja það til.

Ég rak augun í texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem er talað um, með leyfi forseta, og vitnað í ræðu framsögumanns utanríkismálanefndar:

„… með áliti nefndarinnar um frumvarpið kom fram að nefndinni væri ljóst að þar sem fulltrúarnir í þróunarsamvinnunefndinni ættu einnig sæti í samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu gæti orðið vandasamt að skilja nákvæmlega þarna á milli.“

Í kjölfarið er talað um, með leyfi forseta:

„Reynslan hefur sýnt að áhyggjur framsögumanns utanríkismálanefndar voru á rökum reistar og að á núgildandi fyrirkomulagi eru nokkrir annmarkar. Verkefni samstarfsráðsins og þróunarsamvinnunefndar skarast og verkaskipting milli þeirra er óljós, en ekki hefur tekist að bæta úr þessu í framkvæmd.“

Svo virðist vera sem afleiðingarnar af því séu að það eigi að leggja niður heila stofnun.

Ég spyr: Hvað er þetta samstarfsráð og hvert er núverandi fyrirkomulag þróunarsamvinnunefndar sem þetta frumvarp breytir aðeins?