145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:12]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég læt fróðari mönnum það eftir að útskýra nákvæmlega hvert hlutverk nefndra starfshópa og nefnda er. Bent er á það sem rök fyrir breytingunum að átt hafi sér stað óheppileg skörun o.s.frv. Mér finnst það einmitt vera röksemdir í hina áttina, þ.e. að ganga lengra í því að færa verkefni inn í stofnunina og út úr ráðuneytinu. Það eru þarna 40/60 prósenta skipting á milli ráðuneytis og stofnunar, eins og kemur fram, að mig minnir, fremst í áliti minni hlutans. Allar vísbendingar hafa miklu frekar verið í þá áttina. Þar sem stofnunin hefur staðið sig jafn vel í stykkinu og raun ber vitni og almennt er álitið þá sé talið betra að færa þangað fleiri verkefni frekar en að draga úr henni máttinn eða leggja hana niður og færa hana alfarið inn í ráðuneytið.

Það að ætla að lagfæra smáhnökra með risastórri sleggju, að mölva heila stofnun og leggja hana niður og færa inn í ráðuneytið, eru algjörlega fráleit vinnubrögð og eru, eins og kemur fram í hinu ágæta og ítarlega nefndaráliti minni hlutans sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson mælti fyrir áðan, engin raunveruleg eða alvörurök fyrir breytingunni. Ef minni háttar ágreiningur er um minni háttar hnökra á einhverjum sviðum þá er mönnum í lófa lagið að leysa hann og laga til án þess að fara í jafn róttækar og ástæðulausar breytingar og hér er raunin, breytingar sem afskaplega lítill stuðningur virðist vera fyrir hér í þinginu.