145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög góður punktur hjá hv. þingmanni. Ég nefndi áðan í ræðu minni að ef einhver efnisleg eða fagleg rök væru fyrir breytingunum þá gætum við einmitt verið að rökræða þau. Ef fyrir ráðuneytinu vekti að spara fjármuni, ná fram hagræðingu eða breytingum sem leiddu til góðs að þeirra áliti, og þá vonandi annarra líka, væri hægt að veita meiri fjármuni beint í þróunarsamvinnumálin, en svo er nefnilega alls ekki. Dæmið sem hv. þingmaður nefndi hér áðan var mjög nakið og greinargott dæmi um rökleysuna á bak við frumvarpið, rökleysuna á bak við breytingartillöguna og hve fráleitt það er að tefla þessum mikilvægu málum í ágreining þegar áhugaleysið um breytingarnar er nánast yfirþyrmandi hjá meiri hlutanum sem tekur engan þátt í þessari umræðu.