145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég verð nú að segja að mér finnst þessi dagskrártillaga og umræða hér vera fordæmalítill, ef ekki fordæmalaus leikaraskapur. Auðvitað er það svo að ef þingmenn vilja taka mál upp þá er sérstök umræða einn vettvangurinn til að gera það en það eru fjölmargar aðrar leiðir til að taka mál á dagskrá. Ef ekki næst samkomulag milli viðkomandi ráðherra og þingmanns um það hvernig beri að haga sérstakri umræðu þá eru ótal aðrar aðferðir til að taka þau mál, eftir atvikum verðtryggingu eða hvað annað, á dagskrá í þinginu. Fyrirspurnir, munnlegar, skriflegar, óundirbúnar, fjöldamargar aðrar leiðir, flutningur þingmála og þess háttar. Ég sé ekki hvert vandamálið er og ég verð að segja það að ég velti því fyrir mér hvort tillöguflutningur af þessu tagi núna þjóni einhverjum tilgangi í sambandi við tafir á öðru máli sem er á dagskrá í dag.