145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Auðvitað eiga menn ekki að vera að gaspra um einhverja hluti sem þeir ætla svo ekkert að gera neitt í. Auðvitað er það sjálfsagt mál að flytja þessa dagskrártillögu og ég ætla að styðja hana. Það er mjög skiljanlegt að hver framsóknarmaðurinn á fætur öðrum sé núna farinn að skrifa í blöðin og koma hingað upp í ræðustól og undrast að það skuli ekki vera hægt að bjarga þessum málum.

Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. fjármálaráðherra líði að vera í hlutverki Albaníu í þessu tilfelli vegna þess að auðvitað eru þingmenn framsóknarmanna ekki að skammast út í fjármálaráðherra í alvörunni í þessu máli. Þeir eru að skammast út í Kína, hæstv. forsætisráðherra, í þessum efnum.

Það er sjálfsagt mál að styðja þessa dagskrártillögu. Mér finnst hún ekkert fordæmalaus eins og hv. þm. Birgir Ármannsson segir. Mér finnst hún sjálfsögð og þó fyrr hefði verið.