145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst ótrúlegt að kalla þetta málþóf eða málæði. Hér er lögð fram dagskrártillaga af augljósum ástæðum. Það er vegna þess að legið hefur frammi beiðni í níu mánuði um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra um eitt hans helsta kosningamál. Það er tilefni til að leggja fram þessa dagskrártillögu og það er ærið tilefni til að útskýra af hverju maður styður hana. Þetta er ekki málæði eða málþóf. Og ég óska eftir því að þeir sem eru á móti þessari dagskrártillögu útskýri afstöðu sína líka.

Mér finnst líka undarlegt að tala um að þessi dagskrártillaga sé fordæmalaus. Hvað er fordæmalaust í þessu? Er það ekki viðhorf hæstv. forsætisráðherra til þingsins? Ef við ætlum að rannsaka hvað er fordæmalaust og hvað á sér fordæmi í þessu dæmi þá vil ég að þetta sé rannsakað. Hversu margir forsætisráðherrar hafa með jafn markvissum hætti reynt að koma sér undan því á sínum ferli að taka þátt í sérstakri umræðu við þingið um mikilvæg mál? Hversu margar beiðnir hafa verið lagðar fram um sérstakar umræður við hæstv. forsætisráðherra sem hafa síðan ekki farið fram? Af hverju erum við í þessari stöðu? Er hún ekki fordæmalaus? Þarf ekki að rannsaka það?