145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég segi já við þessari dagskrártillögu vegna þess að Alþingi á ekki að líða forsætisráðherra þessa framkomu. Það er rétt hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að það eykur auðvitað ekki virðingu Alþingis að forsætisráðherra hunsi það, þ.e. ef Alþingi lætur bjóða sér það. Þess vegna vek ég athygli þeirra þingmanna sem hafna þessari dagskrártillögu á því að þeir eru að taka afstöðu með framkomu forsætisráðherra. Þeir eru að taka afstöðu með því að forsætisráðherra í landi sem byggir á þingræði og forsætisráðherra sem leiðir þingbundna ríkisstjórn hunsi þá skyldu sína að svara fyrir störf sín á Alþingi. Þeir eru að grafa undan þingræðinu. Þeir eru að taka afstöðu með hegðun sem gengur gegn hefðum og lögum og stjórnarskrá þessa lands. (VigH: Icesave?) Forsætisráðherra ber að svara fyrir störf sín á þingi. Þess vegna er ég hryggur yfir því ef menn ætla að bakka forsætisráðherra upp í þessu. (Forseti hringir.) Lítill er nú orðinn metnaðurinn. Hvar eru menn þá? Eru menn sjálfstæðir þingmenn sem þurfa (Forseti hringir.) ekki að fara eftir neinu nema sannfæringu sinni eða eru þeir eitthvað annað?