145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

forsendur stöðugleikaframlaga.

[11:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú höfum við fengið að heyra að ríkisstjórnin telur sig vera að nálgast niðurstöðu hvað varðar úrlausn mála slitabúa hinna föllnu banka. Við höfum orðið vitni að því að fjármálaráðherra hefur komið fram og í reynd tilkynnt niðurstöður opinberlega en við erum í þeirri sérkennilegu stöðu að allt er á huldu um forsendur þessara ákvarðana. Það er óljóst hvort þetta dugar til þess að almenningur losni úr höftum og það er óljóst hvort stöðugleikaskilyrðin séu í reynd jafn gild stöðugleikaframlögum og stöðugleikaskatti, hvort allt þetta rímar saman.

Það hefur líka verið undarlegt að fylgjast með atburðarás síðustu daga þar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa verið að eltast við fulltrúa erlendra kröfuhafa til að hjálpa þeim að komast hjá því að greiða stöðugleikaskatt sem allir eru sammála um að stenst lagaskilyrði og mundi að óbreyttu skila hundruðum milljarða meira í ríkissjóð og gera það algjörlega öruggt að stöðugleikaskilyrðum yrði mætt. Maður veltir fyrir sér ástæðunum að baki þessari greiðasemi við erlenda kröfuhafa af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Mun forsætisráðherra ábyrgjast að stöðugleikaframlögin séu jafn gild því að stöðugleikaskattur sé greiddur? Og munu forsendur mats á stöðugleikaframlögunum vera gerðar opinberar og stjórnarandstöðu og óháðum sérfræðingum gefast færi á að rýna þessar greiningar til fulls áður en ríkisstjórnin tekur ákvarðanir um að hleypa erlendu kröfunum fyrir fullt og fast úr landi, losa þá algjörlega úr allri klemmu? (Forseti hringir.) Munu forsendurnar verða ljósar áður en ríkisstjórnin hleypir kröfuhöfunum út?