145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

forsendur stöðugleikaframlaga.

[11:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það var eftirtektarvert að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki spurningu minni, um hvort forsendurnar verði gerðar opinberar og að við fáum tækifæri til að rýna þær áður en ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að hleypa erlendum kröfuhöfum úr landi. Það er fullnaðaraðgerð, þá eru þeir sloppnir og ekki verður frekar hægt að gera kröfur á þá.

Sporin hræða. Forsendurnar eru svo óljósar. Tökum sem dæmi þessa mikið upphossuðu yfirtöku á Íslandsbanka sem hefur verið kynnt hér í vikunni. Kröfuhafarnir gátu ekki selt hann í útlöndum þannig að þeir eru dauðfegnir að losna við hann. Íslenska ríkið getur ekki selt hann til erlenda kaupenda miðað við þetta þannig að þá þarf að selja hann hér innan lands. Er það kannski ástæðan fyrir gleði ríkisstjórnarinnar með þá tillögu að þeir eru þegar með kaupendur í huga? Það er alls ekki ljóst að þessi greiðasemi við kröfuhafana, að losa þá undan þessum eignarhlut, (Forseti hringir.) hafi endilega verið í þjóðarþágu. Ég ítreka þess vegna spurninguna til hæstv. forsætisráðherra: Verða forsendurnar opinberar og munu allir geta kynnt sér þær áður en ríkisstjórnin hleypir erlendu kröfuhöfunum út?